R
éttingartækni beinagrindarvöðva er hugtak sem Erik Dalton, Ph.D. þróaði og gaf merkingu sína snemma á níunda áratugnum eftir að hann kom auga á þörfina fyrir sjónarhorn sem tæki fremur mið af vísindum um verki þar sem þau eiga við um mannslíkamann.
Réttingartækni beinagrindarvöðva (RBV) er sú tegund líkamsvinnu sem blandar saman lögmálum hnykkinga og samþættingu líkamsbyggingar til að lina þráláta verki og til að draga úr möguleikanum á að verkir komi fram sem gætu orðið þrálátir í tímans rás. Þessi tækni er oft samþætt hefðbundnum tíma í nuddi og líkamsvinnu og hana má einnig nota til að meðhöndla kerfistengd vandamál.
Grundvallarhugmyndin að baki réttingartækni beinagrindarvöðva er sú að orsakir verkja megi rekja til undirstöðuvandamála í stoðkerfi. Strekktir, spenntir vöðvar stuðla að verkjum með því að þeir takmarka frelsi til hreyfinga um leið og kraftlitlir vöðvar sjá líkamanum fyrir ófullnægjandi stuðningi. Þetta leiðir á sama hátt til vandamála varðandi líkamsstöðu, stirðleika og annarra einkenna sem skapa endalausa hringrás verkja. Með því að takast á við undirstöðuatriðin í vöðvunum og bandvefsreifum vonast sérfræðingar til að útiloka einkennin sem fylgja.
Samþætting líkamsbyggingar og hnykkinga felst að verulegu leyti í meðferð vöðvanna, bandvefsreifa og beinagrindar með það að markmiði að stuðla að almennri heilsu stoðkerfisins. Hugmyndin að baki samþættingu líkamsbyggingar er sú að ef unnt er að samstilla líkamann á fullnægjandi hátt er hægt að draga mikið úr heilsuvanda hans eða hennar með því að líkaminn mun starfa sem heild. Sérfræðingar í hnykkingum deila þessari hugmynd með þeim rökstuðningi að mörg þrálát heilsuvandamál tengist stoðkerfisvandamálum.
Í meðferðartíma þar sem réttingartækni beinagrindarvöðva er beitt vinnur sérfræðingurinn að því að lengja strekkta, spennta vöðva með það að markmiði að losa um spennu og leyfa þeim vöðvum að virka á eðlilegri hátt. Á sama tíma er styrking kraftlítilla vöðva örvuð með beitingu mjúkra, einbeittra teygja sem virka á þessa vöðva. Vöðvarnir og bandvefsreifar munu einnig verða meðhöndluð til að losa verki og stuðla að réttri stöðu stoðgrindarinnar.
Meðferð þar sem réttingartækni beinagrindarvöðva er beitt getur stundum dregið verulega úr verkjum. Beita má reglubundinni meðferð til að takast á við fyrstu merki um sársauka og ná líkamanum aftur í hlutlaust ástand áður en hann þróar með sér slæma hringrás verkja. Þessi tegund líkamsvinnu getur reynst sérlega gagnleg fyrir fólk í streituvaldandi störfum eða fyrir fólk í störfum sem krefjast síendurtekinna hreyfinga þar sem slík atvinna getur valdið miklu álagi á stoðkerfið.